Sagan

Mandala er staðsett í hjarta Stykkishólms, umvafin óteljandi eyjum Breiðafjarðar og þeim töfrandi öflum sem náttúran í kring hefur uppá að bjóða. Húsnæðið er hannað á einstaklega fallegan hátt í marokkóskum stíl. Rýmið hentar fyrir ýmsar gerðir hópa, hvort sem er fyrir fyrirtækjahópa eða fyrir ýmsa mannbætandi viðburði og námskeið.

Upphaflega átti húsnæði Mandölu að gegna hlutverki nýrra höfuðstöðva fyrir fyrirtæki Erlu en örlagadísirnar gripu í taumana og vegna deiliskipulags varð sú hugmynd ekki að veruleika. Á tímum covid gafst Erlu tími og rými til að velta vöngum um hvaða hlutverki húsið skyldi gegna. Hún sökkti sér í að læra að spila á söngskálar og æfði sig af kappi við að spila á gong og önnur hljóðfæri. Við það fæddist hugmyndin um að húsið yrði kallað Mandala og kjarninn i starfseminni væri mannrækt. „Von mín er að Mandala opni hjörtu þeirra sem hingað koma og fylli þau af kærleik. Mandala stendur fyrst og fremst fyrir mannrækt“ segir Erla.

Erla byrjaði að leiða jógatíma fyrir vini og kunningja og smátt og smátt fléttaði hún tónheilun inn í tímana. Á Jónsmessu 2020 leiddi hún í fyrsta skipti tónheilun í Mandölu og allar götur síðan hefur hún verið með tónheilun vikulega að jafnaði og hafa um 200 manns frá Stykkishólmi sótt tónheilun hjá Erlu. Allur ágóði af tónheiluninni fer til góðgerðarmála en það er gjöf Erlu til samfélagsins og um leið til okkar allra, segir hún; ,,fegurðin felst í að gera öðrum gott.” Erla segir tónskálarnar sínar vera dyntóttar og fólkið hafi áhrif á spilið. Þannig fer hljómurinn eftir því hver er á staðnum á hverjum tíma. ,,Það er líkt og þær hafi eigið líf,” segir hún. Hið sama má segja um gongin tvö, Venus og Universe. Þannig kallar Erla til alla vættina umhverfis okkur til að spila með í hvert og eitt skipti. Í upphafi hvers tíma biður hún Ganesha, verndarvætt Mandölu, að vernda og heila fólkið sem kemur í Mandölu og hjálpa til við að kalla inn ljósið og umlykja alla með kærleik.

Um Erlu Björgu

„Fegurðin felst í að gera öðrum gott.“

Allt frá árinu 2003 hefur Erla stýrt alþjóðlegu fiskútflutningsfyrirtæki í Stykkishólmi. Rekstur fyrirtækis krefst mikils af stjórnendum og Erla var oft á tíðum harður húsbóndi. Henni varð það eiginlegt að vera á vaktinni allan sólarhringinn og vera ávallt viðbúin takast á við krefjandi verkefni sem fylgja starfinu. Erla Björg stóð á ákveðnum tímamótum árið 2017, þegar hún áttaði sig á því að vinnan hafði tekið yfir líf hennar og einkalíf hennar var að fjara hratt og örugglega út. Hún stóð frammi fyrir því að stefna rakleiðis í kulnun eða nema staðar og breyta um lífsstíl. Erla bókaði flug til Tælands og þar hitti hún fyrir kínverskan gúrú sem veitti henni þann innblástur sem hún þurfti til að breyta um lífsstíl. Erla upplifði mikla breytingu á sjálfri sér – jafnt líkamlega sem andlega. Að ári liðnu fór hún aftur til Tælands til að tileinka sér hugleiðslu og núvitund. Markmiðið var að öðlast skilning á því hvað hugleiðsla felur í sér og hverju hún geti áorkað. Í þessari 30 daga hugleiðsluferð kynntist Erla mætti hugleiðslunnar. Hún hefur allt frá árinu 2018 byrjað alla daga á því að hugleiðsla ásamt því að leiða hugleiðsluhóp með fólki sem langar til að kynnast hugleiðslu.

„Það gerist eitthvað innra með manni,“ segir Erla sem hefur allar götur síðan haldið áfram þekkingarleitinni. ,,Ferðalagið göfgar mann, það vekur upp hjartað og kærleikann sem býr í okkur – sem hjálpar okkur að sjá það góða í öllu fólki,” segir Erla. Fljótlega eftir heimkomu úr Tælandsferðinni fór Erla að iðka jóga í Yoga Shala þar sem hún svo lauk kennsluréttindum í jóga.

Erla kynntist tónheilun hjá Arnbjörgu Kristínu Konráðsdóttur. ,,Það er ekkert sem hefur hreyft jafn mikið við mér,” segir Erla um sín fyrstu kynni af tónheilun. Við tónheilunina brast eitthvað innra með henni, allar varnir voru á bak og burt og óuppgerðar tilfinningar þustu upp á yfirborðið og stíflan brast. Hún sótti tvö námskeið í gong hjá Arnbjörgu og eignaðist í kjölfarið tvö gong, Universe og Venice, sem eru undirstaða tónheilunar Erlu í Mandölu. Erla kynntist síðan töfrum söngskála þegar hún fór í tónheilun hjá Kamillu Ingibergsdóttur en þar kynntist hún einmitt Sólbjörtu í Ljósheimum sem átti eftir að vera hennar helsta hvatning í þeirri vegferð að opna Mandölu.

Ganesha

 „Ganesha ryður burt öllum hindrunum og er guð nýs upphafs“

Ganesha er mjög táknrænn í Mandölu þar sem stórt líkneski þess er staðsett í miðju rýminu. Það fylgja því miklir töfrar bæði fyrir hjartað og augað, það kallar inn ljósið, heilar það sem er brotið og umlykur alla með kærleik. Líkneskið er indverskur guð sem finnst í ýmsum myndum en þó yfirleitt í formi mannslíkama með fílshöfuð. Ganesha er elsti sonur hinna miklu guða Sivu og Parvati.

Fæðing Ganesha

Parvati fannst vanta einhvern í líf sitt sem gætti hennar hagsmuna þar sem eiginmaður hennar Shiva hefði bandamanninn Nandi sem væri honum trúr og tryggur umfram alla aðra. Það sem opnaði augu Parvati fyrir því var þegar hún fór að baða sig og bað Nandi að vernda dyr hússins og hleypa engum í gegn, en þegar maður hennar kom að þá hleypti Nandi honum strax í gegn þar sem hann var hliðhollur Shiva fremur en Parvati.
Parvati blés lífi í túrmerikkrem sem hún hafði notað til að baða sig og skapaði Ganesha, sinn eigin son sem skyldi ætíð vera henni hliðhollur.
Þegar Parvati gerði það sama og síðast, fór að baða sig og stillti Ganesha upp sem verði við hurð hennar, þá neitaði hann Shiva inngöngu í húsið. Það reitti eiginmann hennar til mikillar reiði að vera neitað inngöngu í sitt eigið hús, svo hann skipaði her sínum að myrða Ganesha en það mistókst öllum hermönnunum sökum máttar Ganesha.
Gáttaður á þessu, ákvað Shiva sjálfur að afhöfða Ganesha. Þegar Parvati komst að þessu varð hún virkilega reið og ákvað að eyðileggja allt sköpunarverkið sem hefnd fyrir morð Ganesha. Þegar guðinn Brahma, skapari alls, komst að þessu ræddi hann málin við hana og hún samþykkti að hætta við áætlanir sínar með tveimur skilyrðum; það fyrra var að Ganesha yrði endurlífgaður og hið síðara að hann skildi tilbeðinn af guðum og mönnum um ókomna tíð.
Shiva samþykkti þessa skilmála þegar hann áttaði sig á skaðanum sem hann hafði ollið. Hann sendi Brahma af stað til að finna haus af fyrstu skepnunni sem hann rækist á sem lægi með höfuð sitt í norður. Brahma kom til baka með höfuð af sterkum og öflugum fíl sem Shiva setti á líkama Ganesha og blés í hann lífi. Hann lýsti því yfir að Ganesha væri líka sinn eigin sonur ásamt því að hann yrði mestur allra guða og leiðtogi þeirra um ókomna tíð.

Hver hluti líkneskisins stendur fyrir ákveðnar stoðir sem við ættum að tileinka okkur í lífinu.

Táknmynd Ganesha

Stóra höfuð
fílsins vísar til þess að við þurfum að hugsa stórt.

Lítil augu
hans vísa til þess að við þurfum að veita hinu smáa athygli

Lítill munnur
vísar til þess að við eigum að tala minna.

Stór eyrun
vísa til þess að við eigum að hlusta meira.

Rani fílsins
stendur fyrir aðlögunarhæfni okkar og allt það sem við getum áorkað

Stór maginn
táknar að við eigum að læra að sætta okkur við hlutina og melta það sem lífið hefur uppá að bjóða.

Fílabeinið
hans táknar að við eigum að einbeita okkur að því góða og sleppa tökum á hinu slæma.

Möntrurnar

Þegar framkvæmdir hófust við hús Mandölu var ákveðið að uppbygging þess yrði gerð með kærleika og góðri trú í hverju hamarshöggi. Áður en húsnæðið var málað voru ritaðar möntrur á alla veggi. Þessar möntrur leggja grunninn að kærleikanum í byggingunni. Þótt möntrurnar séu ekki sýnilegar þar sem málningin hylur þær þá hafa veggirnir sem halda utan um húsnæðið mikla töfra og hækka tíðnina í rýminu og veita andlegt öryggi.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þær möntrur sem notaðar voru:

Aad Gurey Nameh
(To the primal guru (wisdom))

Jugad Gurey Nameh
(To the Guru (wisdom) of the ages)

Sat Gurey Nameh
(To the True Guru (wisdom), I bow to (or call on))

Siri Guru Dev Eyr-nameh
To the Great Divine Guru (wisdom) within, I bow to (or call on)

Sat nam
(I am truth)

Wahe Guru
(God)

AUM
(primordial sound of creation. It is the original vibration of the universe)

Ong Namo Guru Dev Namo
(I bow to the divine teacher within)

Guru Guru, Wahe Guru
(Projects the mind to the Infinite, the source of knowledge and ecstasy)

Guru Ram das Guru
(The wisdom that comes as a servant of the Infinite)

Hlý orð

„Að ganga inn í Mandölu er eins og að stíga inn í annan heim, þar sem friður og ró umvefur mann frá fyrsta augnabliki. Áhyggjur og stress verða eftir úti og fjúka burt meðan maður nýtur slökunar og heilunar innandyra.“

Sigríður Elísabet Elísdóttir

„Upplifun mín af tónheilun hefur verið mögnuð og ólík í hvert skipti. Að leggjast á dýnuna, opna fyrir hjartastöðina og leyfa tónunum að flæða gegnum sig inn í hverja frumu. Að lokum geng ég út andlega endurnærð og sterk.“

Ragnheiður Valdimarsdóttir

„Tónheilun. Ég leggst á dýnuna og um leið og tónarnir byrja að flæða hverf ég. Það er eins og hendur og fætur séu ekki lengur föst við mig, ég fer út úr líkamanum. Stundum svíf ég í geimnum, stundum flýt ég á öldum hafsins. Engin tónheilun er eins, upplifunin er ný í hvert einasta skipti. Þegar stundin er liðin vil ég helst fá að liggja áfram. Þetta er engu líkt.“

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir

„Mandala er mitt andlega ferðalag. Sálin ferðast út fyrir tíma og rúm inn í hina hlýju og umvefjandi alheimsorku. Orkustöðvarnar nærast hver af annarri og þegar sálin er tilbúin ferðast hún tilbaka og heldur áfram út í lífið. Þakkir til þín Mandala fyrir einstaka stund.
Namaste.“

Arna Eir